Hettumáfur
©Jóhann Óli Hilmarsson
Hettumáfur – ungfugl að vetri til
©Jóhann Óli Hilmarsson
Hettumáfur að vetri til
©Jóhann Óli Hilmarsson
Hettumáfur – fyrsta haustið
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
Ársgamall hettumáfur
©Jóhann Óli Hilmarsson
Almennar upplýsingar
Hettumáfur er algengur votlendisfugl og minnsti máfurinn sem verpur hér á landi. Hann er oftast auðþekktur, ljósari, minni og léttari á flugi en rita og stormmáfur. Í sumarbúningi er fullorðinn fugl ljósgrár á baki og vængjum en annars hvítur að mestu. Dökkbrún hetta nær niður á háls, vængbroddar eru svartir. Er hettulaus í vetrarbúningi, frá ágúst og fram í mars, með svartar kámur á hlustarþökum. Nýfleygir ungar eru brúnflikróttir að ofan en lýsast á haustin. Fugl á fyrsta vetri er hvítur á höfði, hálsi og að neðan, vængir brún- og svartflikróttir að ofan, stéljaðar svartur. Fær fullan búning á öðru hausti. Kynin eru eins.
Hettumáfur er ekki eins mikill sjófugl og rita. Hann sést oft við fæðuleit í fjörum, á leirum og við skólpræsi. Stundum eltir hann sláttuvélar eða plóga og hremmir skordýr sem koma í ljós í slægjunni eða plógfarinu. Félagslyndur og fremur spakur.
Fæða og fæðuhættir:
Aðalfæðan er úr dýraríkinu: skordýr, sniglar, ormar og aðrir hryggleysingjar. Sækir einnig í smáfisk, ber og úrgang. Leitar ætis bæði fljúgandi, syndandi og gangandi, oft á nýslegnum túnum eða í plógförum.
Fræðiheiti: Larus ridibundus