Það er skrýtið að hugsa um það, en einu sinni voru engir fuglar til. Þeir komu ekki á sjónarsviðið fyrr en nokkuð var liðið á sögu lífríkis á jörðunni.
Allir vita hvað er fugl - eða hvað? Kannski ættum við í vandræðum með að útskýra það fyrir einhverjum sem aldrei hefði litið þá augum!
Á jörðinni er náttúran margbreytileg. Látið aðeins hugann reika! Víðast má finna fugla. Ákveðin tegund ríkir hér og önnur þar.
Líkt og aðrar lífverur eiga fuglarnir sín æviskeið. Þeir skríða úr eggi, vaxa, dafna, fjölga sér og deyja.
Fuglar eru ólíkir í háttum. Sumir halda hópinn, aðrir eru einfarar, sumir veiða dýr, aðrir tína fræ, sumir fljúga langt aðrir fara ekki neitt. Þannig mætti halda áfram.
Það er gaman að fylgjast með fuglum. Fuglaskoðun er tómstundaiðja fjölda fólks. Margt má læra með því að fylgjast með fuglum.