• Toppönd

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Toppandarsteggur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Steggur og kolla

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Kolla og steggur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Toppönd er algengasta fiskiöndin hér, grannvaxin, hálslöng og rennileg, vaxtarlagið minnir á skarfa og brúsa. Hún er með langan, mjóan gogg og áberandi, stríðan topp í hnakka. Steggurinn er með grængljáandi höfuð, grár á búkinn, hvítur á hálsi og brúndröfnóttur á bringu. Hann hefur svart belti með hvítum doppum á bringuhliðum. Í felubúningi er steggur líkur kollu, en dekkri að ofan, hann byrjar oft að skipta um búning þegar í maí. Kollan er að mestu grábrún, höfuðið ljósrauðbrúnt. Bæði kyn eru með gráan yfirvæng með hvítum speglum.

Flýgur venjulega lágt og hratt með sterklegum vængjatökum. Toppöndin er félagslynd og er oft í litlum hópum. Tilhugalífið er oft afar fjörlegt og mikil læti í karlfuglinum á útmánuðum og vorin. Afbragðs kafari og góð til gangs og sést stundum veiða í hópum og hrekja bráðina á undan sér inn á grynningar.


Fæða og fæðuhættir:
Fiskiæta, aðalfæðan á ferskvatni er hornsíli, veiðir einnig seiði laxfiska. Á sjó m.a. smáufsi, sprettfiskur og sandsíli. Kafar með dýfu.


Fræðiheiti: Mergus serrator

Kjörlendi og varpstöðvar

Toppöndin verpur við stöðuvötn, ár og strendur, aðallega á láglendi en er sjaldgæf á hálendinu. Hreiðrið er vel falið í gróðri eða holum og sprungum, fóðrað með sinu og dúni. Á vetrum leitar hún út á sjó og steggir fella fjaðrirnar aðallega á sjó. Sést miklu sjaldnar á ferskvatni á veturna en frænka hennar, gulöndin.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Toppönd er að nokkru farfugl, einhver hluti stofnsins hefur vetursetu á Bretlandseyjum. Verpur á breiðu belti allt umhverfis norðurheimskautið.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR