Æðarfugl
©Jóhann Óli Hilmarsson
Æðarbliki
©Jóhann Óli Hilmarsson
Ungur bliki (veturliði)
©Jóhann Óli Hilmarsson
Æðarkolla
©Jóhann Óli Hilmarsson
Æðarbliki
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
Æðarblikar í felli
©Jóhann Óli Hilmarsson
Almennar upplýsingar
Æðarfugl er stór kafönd sem heldur sig nær eingöngu á og við sjó og er algengasta önd landsins. Æður er breiðvaxin með stórt aflangt höfuð og stutt stél. Fullorðinn bliki er auðþekktur, hvítur að ofan og svartur að neðan, með svarta kollhettu, ljósgræna flekki á hnakka og roðlitaða bringu. Vængir eru svartir með hvítum framfjöðrum og löngum hvítum axlafjöðrum. Hvítur blettur er á hliðum undirgumps. Bliki á fyrsta vetri er dökkbrúnn með ljósari bringu og axlafjaðrir, hann kallast veturliði. Hann lýsist síðan smátt og smátt á höfði og að ofan, er á öðrum vetri eins og flekkóttur fullorðinn bliki. Í felubúningi er bliki svipaður og ungfugl en allur dekkri, líka á bringu. Fullorðin kolla er dökkbrún, þverrákótt að neðan en dökkflikrótt að ofan, fínrákótt á höfði og hálsi og er þetta eina öndin með þess konar litamynstur. Vængspeglar eru ógreinilegir. Ung kolla er mun dekkri og jafnlitari.
Æðarfuglinn er fremur þungur á sér á flugi og flýgur beint, hratt og lágt yfir ölduföldunum. Er þungur til flugs en afbragðs kafari. Gengur reistur og vaggandi. Er ávallt félagslyndur og oftast spakur. Hljóð blikans á vorin, „úið“, er eitt af einkennishljóðum vorsins á Íslandi.
Fæða og fæðuhættir:
Fjölbreytt fæða úr dýraríkinu, sem fuglinn kafar eftir á grunnsævi. Kræklingur er mikið etinn, einnig aðrar samlokur, sæsniglar, burstaormar, krossfiskar og krabbadýr. Þegar loðnu er landað sækja fuglarnir í hrognin í höfnum og einnig í annan fiskúrgang.
Fræðiheiti: Somateria mollissima