• Fýll

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Fýll á hreiðri

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Norrænn, dökkur fýll

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Fýll er stór gráleitur sjófugl sem minnir á máf, þéttvaxinn og hálsdigur með langa og mjóa vængi. Ungfugl er eins og fullorðinn og kynin eru eins.

Fýll er auðgreindur frá máfum á einkennandi fluglagi, tekur fáein vængjatök og lætur sig svo svífa á stífum vængjunum. Hann er léttur á sundi en á oft erfitt með að hefja sig á loft, sérstaklega í logni. Fýll er þungur til gangs. Leitar sér ætis bæði á flugi og syndandi, gjarnan kringum fiskiskip, í höfnum og við fiskvinnslustöðvar.


Fæða og fæðuhættir:
Smáfiskur, einkum loðna og sandsíli, einnig krabbadýr, smokkfiskur og önnur sjávardýr. Úrgangur frá fiskiskipum er mikilvæg fæða, etur einnig úrgang frá fiskvinnslustöðvum. Etur oftast á yfirborði, en á það til að taka grunnar dýfur.


Fræðiheiti: Fulmarus glacialis

Kjörlendi og varpstöðvar

Fýll er úthafsfugl, sem verpur í byggðum í klettum og björgum við sjó eða inn til landsins, stundum ofan á klettaeyjum eða dröngum. Hreiðrið er grunn dæld, oft fóðrað með steinvölum eða þurrum gróðri, og er því valinn staður á syllu, í skúta eða grasbrekku. Fýlar eru einkvænisfuglar og parast ævilangt. Fýllinn er langlífur fugl, hann verður seint kynþroska og getur a.m.k. orðið 60 ára gamall. Kvenkyns fýll var merktur á hreiðri á Orkneyjum 1951 og náði fuglinn sextugsaldri og var þá enn frjór. Fýllinn var myndaður með skoskum fuglafræðingi þegar hann var merktur og svo aftur 40 árum síðar. Fuglafræðingurinn hafði vissulega látið á sjá á þessum tíma, meðan fýllinn leit jafn vel út og fyrr.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Fýllinn er að mestu farfugl. Hann hefur breiðst mjög út á undanförnum áratugum og öldum og er talið að það stafi af mikilli fæðu sem fylgdi auknum hvalveiðum og síðar vaxandi fiskveiðum í Norður-Atlantshafi. Hann hefur fært sig inn til landsins og verpur allt að 50 km frá sjó. Honum hefur þó fækkað undanfarið eða um 30% á síðasta aldarfjórðungi. Fýll er útbreiddur varpfugl við strendur Norður-Atlantshafs og nyrst við Kyrrahaf.

Fýlar hverfa að mestu frá landinu á haustin og halda sig í norðanverðu Atlantshafi en heimsækja þó oft vörpin í mildu veðri og eru sestir upp snemma, eða í janúar til mars. Fýlar frá Norðausturlandi flakka víða eftir að þeir yfirgefa landið. Flestir eru á hafsvæðinu milli Grænlands og Nýfundalands eða við Suðvestur-Grænland en einhverjir fara í átt að Svalbarða, í Barentshaf og alla leið austur til Novaja Zemlja.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR