Fálki
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
Fálki – ungfugl
©Jóhann Óli Hilmarsson
Almennar upplýsingar
Fálki eða valur er stór og tígulegur ránfugl, með langa, breiða, odddregna vængi og langt stél, stærsti fugl fálkaættarinnar. Hann er breytilegur að lit, fullorðinn fálki er venjulega grár eða grábrúnn að ofan með hvítum doppum og rákum, ljósari að neðan, oftast hvítur eða ljósgulleitur með dökkum rákum og dílum. Höfuðið er meira eða minna rákótt, stundum með greinilegum skeggrákum. Stélið er þverrákótt. Karlfuglinn er venjulega ljósari, en kvenfuglinn stærri. Ungfugl er dekkri, stundum aldökkur með hreisturmynstri að ofan og rákóttur að neðan. Fullorðnir hvítfálkar eru alhvítir með dökka vængbrodda og rákir að ofan. Þeir eru árvissir gestir frá Grænlandi. Íslenskir fuglar geta þó verið mjög ljósir, þeir ljósustu eru nær hvítir á höfði og að neðan.
Fálkinn flýgur með hröðum, kraftmiklum vængjatökum, grípur oft til renniflugs, er hraðfleygur og mjög fimur á flugi. Fálkinn gefur frá sér hvellt væl á varpstöðvum en gargar reiðilega þegar hann er í árásarhug, er þó oftast þögull.
Fæða og fæðuhættir:
Aðalfæða fálkans er rjúpa, sem hann slær með klónum á flugi eða grípur á jörðu niðri. Veiðir flestar tegundir fugla, en það fer talsvert eftir veiðilendum hvaða bráð verður fyrir valinu, allt frá fullorðnum heiðagæsum niður í þúfutittlinga og auðnutittlinga, einnig hagamýs.
Fræðiheiti: Falco rusticolus