Haförn
©Jóhann Óli Hilmarsson
Haförn – ungfugl
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
Almennar upplýsingar
Örninn er stærsti og sjaldgæfasti ránfugl landsins, með yfir 2 m vænghaf, oft nefndur konungur fuglanna. Aðallitur er brúnn, fullorðinn örn er gulur eða ljósbrúnn á höfði, aftur á bak og niður á bringu, fjaðrajaðrar ljósir á baki og yfirvæng (hann er „hreistraður“). Fleyglaga stélið er hvítt. Ungfugl er allur dekkri, mógul- og rauðbrúnflikróttur að ofan, ljósari að neðan, sérstaklega á bringu. Hann lýsist síðan smátt og smátt með aldrinum, stél á undan höfði, verður fulltíða sex ára. Kvenfuglinn, assan, er töluvert stærri en karlfuglinn.
Haförn er auðgreindur á stærð og lögun og ferhyrndum vængjunum með ystu handflugfjaðrir vel aðskildar (fingraðar). Svífur gjarnan en er þunglamalegur í flugtaki. Oft má sjá úr mikilli fjarlægð hvar örninn svífur á þöndum vængjum yfir landi eða hafi og leitar sér að bráð, eða hvar hann situr langtímum saman kyrr á sama útsýnisstaðnum. Venjulega er hann styggur og friðsamur en getur verið ágengur við hreiður. Ernir eru oftast stakir, í pörum eða smáhópum.
Fæða og fæðuhættir:
Örninn veiðir sér til matar og er aðalbráðin fýll sem hann tekur á flugi, æðarfugl tekur hann á sjó og fiskur (hrognkelsi, laxfiskar) sem hann grípur við yfirborð. Lundi og máfar eru einnig teknir. Hann etur gjarnan hræ og rænir stundum æti frá öðrum fuglum.
Fræðiheiti: Haliaeetus albicilla