Gulönd
©Jóhann Óli Hilmarsson
Kolla og steggur
©Jóhann Óli Hilmarsson
Steggur
©Jóhann Óli Hilmarsson
Kolla
©Jóhann Óli Hilmarsson
Almennar upplýsingar
Gulöndin, þessi stóra systir toppandarinnar, er stærsta íslenska ferskvatnsöndin. Fullorðinn steggur virðist í fjarska svartur að ofan en hvítur að neðan. Aðallitur er hvítur með rjómagulum eða laxableikum blæ. Höfuðið er dökkgrængljáandi með úfnar hnakkafjaðrir í stað topps. Bakið er svart og afturendi grár. Í felubúningi líkist hann kollu, en er dekkri að ofan og ljósari á síðum. Kollan er með gráan búk og rauðbrúnt höfuð. Einfaldur, stríður hnakkatoppur, hvít kverk og skörp skil á hálsi milli brúna og gráa litarins greina hana frá toppandarkollu, auk stærðarinnar.
Gulönd virðist fremur löng og flöt á flugi, enda heldur hún höfði, hálsi og bol lárétt. Háttum svipar til toppandar. Er oftast í litlum hópum. Er venjulega þögul nema í tilhugalífinu, gargar þá rámt.
Fæða og fæðuhættir:
Fiskiæta, kafar eftir smásilungi, laxaseiðum og hornsíli. Á sjó tekur hún m.a. marhnút og annan smáfisk. Tekur dýfur þegar hún kafar.
Fræðiheiti: Mergus merganser