Haftyrðill
©Jóhann Óli Hilmarsson
Haftyrðill að vetri til
©Jóhann Óli Hilmarsson
Haftyrðill að sumri til
©Jóhann Óli Hilmarsson
Að sumarlagi
©Jóhann Óli Hilmarsson
Almennar upplýsingar
Haftyrðill er líkur álku en miklu minni, smæstur svartfugla og einn af minnstu sjófuglunum. Hann er þybbinn, hálsstuttur og mjög kubbslegur, á stærð við stara. Vængirnir eru stuttir. Á sumrin er hann svartur að ofan, niður á bringu, og hvítur að neðan. Hvítar rákir eru um axlir. Á veturna verður hann hvítur á bringu, kverk og upp á vanga. Kynin eru eins.
Haftyrðillinn flýgur með hröðum vængjatökum eins og lundi og er ekki ósvipaður honum á flugi. Þó eru vængir hans styttri og undirvængir dökkir. Fuglinn virðist hálslaus á sundi og flugi. Hann er venjulega fremur djúpsyndur, með stélið lítið eitt uppsveigt og kafar ótt og títt en flýtur hátt í hvíld. Kvikari í hreyfingum en aðrir svartfuglar. Haftyrðill er hávær á varptíma en annars þögull.
Fæða og fæðuhættir:
Kafar eftir æti eins og aðrir svartfuglar, aðalfæðan eru svifdýr (smákrabbadýr): ljósáta, marflær og þanglýs.
Fræðiheiti: Alle alle