• Glókollur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Glókollur – ungfugl

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Glókollur er minnsti fugl Evrópu og þá jafnframt minnsti fugl Íslands. Hann er áberandi hnöttóttur, hálsstuttur, ólífugrænn að ofan, grænleitur á síðum, með gula kollrák og svartar rendur hvora sínu megin við hana, án brúnarákar. Tvö ljós vængbelti og gulir fjaðrajaðrar á svartleitum vængfjöðrum eru einkennandi. Hluti kollrákar karlfugls er appelsínugul. Ungfuglar eru án kollrákanna en vængmynstur er áberandi. Vængir stuttir og breiðir.

Kvikur og sístarfandi, leitar ætis í trjám, stundum á flugi eða hangandi á hvolfi. Kallið er hátt tíst, á hárri tíðni sem fer gjarnan framhjá fólki sem komið er á miðjan aldur eða eldra. Söngurinn er hávært, endurtekið tveggja atkvæða hljóð sem endar með dilli.


Fæða og fæðuhættir:
Undirstöðufæða glókolls er grenilús (sitkalús) og stökkmor, en hann tekur einnig önnur smádýr á trjám, eins og köngulær, aðrar blaðlýs, feta, lirfur, púpur og skordýraegg af laufi og barri. Tekur einnig stökkmor af jörðu niðri. Veiðir aðallega á fæti, en andæfir stundum og grípur skordýr.


Fræðiheiti: Regulus regulus

Kjörlendi og varpstöðvar

Skógarfugl sem finnst fyrst og fremst í greniskógum en einnig í blönduðum skógum. Hreiðrið er kúlulaga með tveimur opum, gert úr mosa og gróðurleifum, hangandi neðan á grenigrein. Verpur venjulega nokkrum sinnum yfir sumarið.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Glókollur er staðfugl. Hann var lengi árviss haustflækingur, en er nýfarinn að verpa og hefur komið ár sinni vel fyrir borð í hinum nýju greniskógum hérlendis. Mikil ganga kom haustið 1995 og hefur hann sennilega hafið varp í kjölfar hennar, þó svo að það væri ekki staðfest fyrr en sumarið 1999. Breiddist fljótt út um mestallt land nema Vestfirði. Stofninn hefur tvisvar hrunið í kuldaköstum, 2004 og 2014, en náð sér á strik aftur. Hann er staðfugl hér, sem virðist lifa ágætlega af veturinn, ef fyrrnefnd hrun eru undanskilin. Er útbreiddur skógarfugl í Evrópu og á blettum í Asíu austur til Japan.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR