Glókollur
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
Glókollur – ungfugl
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
Almennar upplýsingar
Glókollur er minnsti fugl Evrópu og þá jafnframt minnsti fugl Íslands. Hann er áberandi hnöttóttur, hálsstuttur, ólífugrænn að ofan, grænleitur á síðum, með gula kollrák og svartar rendur hvora sínu megin við hana, án brúnarákar. Tvö ljós vængbelti og gulir fjaðrajaðrar á svartleitum vængfjöðrum eru einkennandi. Hluti kollrákar karlfugls er appelsínugul. Ungfuglar eru án kollrákanna en vængmynstur er áberandi. Vængir stuttir og breiðir.
Kvikur og sístarfandi, leitar ætis í trjám, stundum á flugi eða hangandi á hvolfi. Kallið er hátt tíst, á hárri tíðni sem fer gjarnan framhjá fólki sem komið er á miðjan aldur eða eldra. Söngurinn er hávært, endurtekið tveggja atkvæða hljóð sem endar með dilli.
Fæða og fæðuhættir:
Undirstöðufæða glókolls er grenilús (sitkalús) og stökkmor, en hann tekur einnig önnur smádýr á trjám, eins og köngulær, aðrar blaðlýs, feta, lirfur, púpur og skordýraegg af laufi og barri. Tekur einnig stökkmor af jörðu niðri. Veiðir aðallega á fæti, en andæfir stundum og grípur skordýr.
Fræðiheiti: Regulus regulus