Sendlingur
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
Sendlingur að vetri til
©Jóhann Óli Hilmarsson
Sendlingur að sumri til
©Jóhann Óli Hilmarsson
Sumar
©Jóhann Óli Hilmarsson
Almennar upplýsingar
Sendlingur er lágfættur og kubbslegur, með stuttan háls og fremur stuttan gogg. Hann er dekkstur litlu vaðfuglanna og líka einn af þeim minnstu, litlu stærri en sandlóa og lóuþræll. Á sumrin er hann grá- og brúnflikróttur að ofan, á höfði og bringu, en hvítur á kviði. Á flugi sjást mjó, ljós vængbelti og svört miðrák í hvítum gumpi. Á vetrum er hann allur grárri. Litur ungfugla á haustin er mitt á milli litar sumar- og vetrarfiðurs fullorðinna. Kynin eru eins.
Sendlingur flýgur lágt og beint, syndir auðveldlega. Er félagslyndur utan varpstöðvanna og oft í stórum hópum. Sendlingurinn er spakur og flýgur oft ekki upp fyrr en komið er alveg að honum.
Fæða og fæðuhættir:
Á varptíma skordýr, köngulær og aðrir hryggleysingjar. Doppur, smá skeldýr, burstaormar, krabbadýr og þangflugulirfur er aðalfæðan í fjörum.
Fræðiheiti: Calidris maritima