Máfar, kjóar og þernur eru af sama ættbálki og vaðfuglar og svartfuglar og teljast til strandfugla. Þetta eru dýraætur sem lifa aðallega á sjávarfangi, en einnig á skordýrum, úrgangi, fuglsungum, eggjum og fleiru.
Flestir máfar og kjóar eru með sterklegan gogg, sem er krókboginn í endann og sundfit milli tánna.
Kynin eru eins að útliti, en karlfuglinn er oftast ívið stærri. Máfar, kjóar og þernur verpa yfirleitt í byggðum. Ungar þeirra eru bráðgerir. Máfum er oft skipt í tvo hópa til hægðarauka, stóra máfa (svartbakur, hvítmáfur, sílamáfur o.fl.) og litla (t.d. hettumáfur, rita og stormmáfur).