• Músarrindill

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Músarrindill er einn af einkennisfuglum birkiskóganna. Hann er auðþekktur á smæð, hnöttóttu vaxtarlagi, uppsperrtu stéli og þróttmiklum söng sem heyrist allt árið. Hann er rauðbrúnn að ofan en mógrár að neðan með dökkar rákir á vængjum, síðum og undirgumpi og hvíta díla á aðfelldum væng. Hann hefur ljósa brúnarák.

Músarrindillinn flýgur hratt og beint með höfuðið teygt fram og heyrist þytur þegar hann blakar vængjunum ótt og títt. Hann flýgur sjaldan og ekki langt í einu. Þegar hann situr sveiflar hann uppsperrtu stélinu stöðugt til og frá. Hann er síkvikur en felugjarn og leitar sér ætis í þéttum gróðri og grónum urðum. Er venjulega einfari eða fáir saman. Músarrindill var lengi talinn minnsti íslenski fuglinn, en þegar glókollurinn nam hér land rétt fyrir aldamótin steypti hann honum af stóli sem minnsti fugl landsins.


Fæða og fæðuhættir:
Lifir á skordýrum (bjöllum, lirfum, tvívængjum og fetum) og köngulóm, sem hann tínir í lágu þykkni, undir runnum og kjarri, í skurðum og lækjum og á öðrum rökum, dimmum stöðum. Á vetrum er hann oft í fjörum, þar sem þangflugur og marflær eru aðalfæðan.


Fræðiheiti: Troglodytes troglodytes

Kjörlendi og varpstöðvar

Músarrindillinn verpur dreift í kjarrlendi, skóglendi, grónum hraunum og urðum á láglendi. Hreiðrið er kúlulaga. Karlfuglinn vefur það úr sinu og rofalýjum undir bökkum, í trjám eða hraunsprungum. Verpur oft tvisvar á sumri. Á veturna heldur hann sig við opna læki, skurði og í fjörum.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Músarrindillinn er staðfugl. Varpheimkynni eru á breiðu belti á norðurhveli jarðar. Íslenski músarrindillinn (Troglodytes troglodytes islandicus) er stærri og dekkri en frændur hans í Evrópu.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR