• Stari

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Vetur

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Sumar

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Stari– ungfugl

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Vetur

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • Sumar

  ©Jóhann Óli Hilmarsson

 • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Stari er þéttvaxinn, dökkur spörfugl, á stærð við skógarþröst og býr í nábýli við manninn. Hann hefur langan, oddhvassan gogg og fremur flatt enni, stutta, þríhyrnda, oddhvassa vængi og stutt og breitt stél. Í sumarfiðri er hann svartur með bláan, grænan og fjólubláan gljáa. Er lítillega doppóttur, aðallega að ofan, sterkari gljái er á karlfugli. Á veturna er hann alsettur fínlegum doppum, ljósbrúnum um bak en hvítum um kvið. Doppurnar eru ljósir fjaðraendar sem eyðast á útmánuðum. Ungfugl er grábrúnn með ljósa kverk og rákir á bringu og kviði.

Starinn flýgur beint, blakar vængjunum hratt eða lætur sig svífa og er auðþekktur á fluglagi og lögun. Hann syngur á setstað með lafandi eða skjálfandi vængi og úfnar hálsfjaðrir, einnig á veturna. Hann situr hnarreistur og hleypur eða gengur á jörðu niðri en valhoppar ekki eins og þrestir. Er ávallt félagslyndur og oft í stórum hópum við náttstaði.


Fæða og fæðuhættir:
Lifir á fjölbreyttri fæðu: skordýr og köngulær eru mikilvæg og fæða þeir ungana á þeim. Taka einnig ber, bæði í mó og görðum, sem og önnur fræ og aldin. Leita í fjörur eftir æti, sömuleiðis öskuhauga og skólpræsi. Sækja í garða þar sem fuglum er gefið og eta flest allt sem lagt er út, síst þó korn.


Fræðiheiti: Sturnus vulgaris

Kjörlendi og varpstöðvar

Kjörlendi stara er þéttbýli ýmiss konar og sveitabæir. Hann verpur í húsum, hreiðurkössum, en varp í klettum og hraunum hefur aukist á síðustu árum. Hreiðrið er grófgert, úr tágum, sinu, fjöðrum og drasli, staðsett í holum undir þakskeggjum, veggjum, hreiðurkössum og jafnvel í yfirgefnum vinnuvélum og skipum. Verpur stundum tvisvar á sumri. Starar af stórum svæðum nátta sig saman, oftast í grenilundum eða háum byggingum.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Starinn er staðfugl. Hann hóf að verpa í Hornafirði um 1940. Hann hóf varp í Reykjavík um 1960, hefur breiðst hægt út þaðan og verpur nú í flestum landshlutum. Hann verpur víða um heim, bæði á norður- og suðurhveli, þar sem hann er innfluttur.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR