Auðnutittlingur
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
Auðnutittlingur – ungfugl
©Jóhann Óli Hilmarsson
Almennar upplýsingar
Auðnutittlingur er lítil, rákótt, grábrún finka með stutt stél. Rauður blettur á enni og svartur á kverk eru einkennandi. Hann hefur dökkar rákir á síðum, dauf vængbelti og grunnsýlt stél. Síðla vetrar og á vorin verður karlfuglinn bleikur eða rauðleitur á bringu og gumpi. Ungfuglar eru í fyrstu brúnflikróttir, án rauða blettsins á enni, en fá fullan búning í ágúst.
Auðnutittlingur flýgur í léttum bylgjum. Hann er kvikur og fimur þegar hann leitar sér ætis í trjám og öðrum gróðri. Er oftast í litlum hópum utan varptíma en þeir geta þó orðið allstórir.
Fæða og fæðuhættir:
Auðnutittlingur er frææta, sem byggir tilveru sína á birkifræi. Fæðir ungana á dýrafæðu: skordýrum og köngulóm. Taka einnig fræ njóla, baldursbrár og fleiri villijurta. Hafa nýlega komist upp á lag með að ná í fræ úr greni- og furukönglum. Algengir á fóðurbrettum þar sem fræ eru gefin og er sólblómafræ eitt besta fóðrið fyrir auðnutittlinga.
Fræðiheiti: Carduelis flammea