Álka
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
Álka á hreiðri
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
Vetrarbúningur
©Jóhann Óli Hilmarsson
Almennar upplýsingar
Álkan er miðlungsstór svartfugl. Hún líkist langvíu og stuttnefju en er hálsstyttri og með hærri gogg. Í sumarbúningi er álka svört á höfði, hálsi og baki en hvít á bringu og kviði. Á veturna eru framháls, kverk og hlustarþökur hvít. Ungfuglar eru með smágerðari gogg. Kynin eru eins.
Álka flýgur hratt og beint með teygðan háls, lágt yfir haffleti. Er létt á sundi og sperrir þá oft stél og jafnvel gogg. Góður kafari eins og aðrir svartfuglar og notar vængina jafnt sem fæturna við köfun. Álka á erfitt um gang, situr á ristinni og heldur jafnvægi með stélinu. Er félagslynd.
Fæða og fæðuhættir:
Álka kafar eftir fiski og notar vængina til að kafa með eins og aðrir svartfuglar, „flýgur“ neðansjávar. Fæðan er aðallega smáfiskur eins og sandsíli, loðna og síld, í minna mæli ljósáta og aðrir hryggleysingjar.
Fræðiheiti: Alca torda