• Stuttnefja

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Stuttnefja að vetri til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Stuttnefja er fremur stór svartfugl sem svipar mjög til langvíu. Á sumrin er hún svört að ofan en hvít að neðan, síður hvítar án ráka. Hvítir jaðrar armflugfjaðra mynda ljósa rák á aðfelldum væng. Á veturna teygist hvítur litur bringunnar upp á kverk. Kynin eru eins.

Fluglag og hegðun eru í grundvallaratriðum eins og hjá langvíu. Stuttnefja er best greind frá langvíu á hvítum síðum, dekkri lit að ofan, styttri og þykkari goggi með hvítri goggrönd, brattara enni og kantaðri kolli og á veturna á hvítum vöngum. Höfuðlag er annað en á álku, auk þess er stuttnefja hálslengri og stélstyttri. Hún flýgur með kýttan háls og er fimur kafari. Er afar félagslynd.


Fæða og fæðuhættir:
Kafar eftir fæðunni og knýr sig áfram með vængjunum neðansjávar líkt og aðrir svartfuglar. Aðalfæðan er loðna, en tekur einnig síli, síld, annan smáfisk, ljósátu og marflær.


Fræðiheiti: Uria lomvia

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur í stórum byggðum í fuglabjörgum. Egginu er orpið á berar syllur, hreiðurgerð er engin. Stuttnefja er oft á mjórri syllum en langvía og stundum í stökum pörum. Er annars á sjó og er meiri úthafsfugl en langvía. Ungi yfirgefur varpsyllu löngu áður en hann er fleygur, um þriggja vikna gamall, um miðjan júlí.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Stuttnefjan er að mestu farfugl. Mjög stór hluti íslenska stofnsins verpur í stóru vestfirsku björgunum, Látra-, Hælavíkur- og Hornbjargi. Stuttnefju fækkaði um 44% á árunum milli 1983 og 2008 og er hún nú á válista. Vetrarstöðvar íslenskra fugla eru við Suður-Grænland og norðan við Ísland. Varpheimkynni eru í íshafslöndum Atlantshafs, Kyrrahafs og við Norður-Íshafið, stuttnefjan er hér á suðurmörkum útbreiðslu sinnar.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR