• Svartþröstur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Svartþröstur- kvenfugl

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Svartþröstur - ungur karlfugl

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Fleygur ungi

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Kvenfugl

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Svartþröstur er svipaður gráþresti að stærð, og að lit ekki ósvipaður stara. Þekkist best frá stara á lengra stéli, jöfnum, svörtum lit án díla (karlfugl) og lengra stéli, auk þess á hátterninu, sem svipar til hegðunar annarra þrasta. Fullorðinn karlfugl er alsvartur, goggur og augnhringir skærgulir. Ungur karlfugl (á fyrsta vetri) er með dökkan gogg sem lýsist þegar líður á veturinn. Kerlan er dökkmóbrún að ofan, aðeins ljósrákóttari að neðan og með gráa kverk.

Er venjulega felugjarn, nema syngjandi karlfugl á vorin, sem hreykir sér í trjátoppum. Svartþrestir sjást stakir eða í smáhópum.


Fæða og fæðuhættir:
Etur bæði úr dýra- og jurtaríkinu, leitar að skordýrum, köngulóm og ormum á jörðu niðri, tekur einnig ber í runnum og trjám. Á veturna sækja þeir í garða þar sem epli, aðrir ávextir og feitmeti er gefið.


Fræðiheiti: Turdus merula

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur í trjám í görðum og trjálundum. Varptími svartþrasta er langur og verpa þeir nokkrum sinnum yfir sumarið. Fuglarnir fara að syngja í lok febrúar, oft löngu fyrir birtingu og sérstaklega í dumbungsveðri, og verpa þeir fyrstu í lok mars og ófleygir ungar hafa fundist alveg fram í september. Utan varpstöðva sést hann í görðum, við bæi og í fjörum.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Svartþröstur er staðfugl. Hann var haust- og vetrargestur eins og gráþröstur, fyrsta staðfesta varpið var í Reykjavík 1969. Frá árinu 1991 hafa svartþrestir orpið reglulega í Reykjavík. Vorið 2000 kom mikil ganga, sem var gott ílag í stofninn og eftir það hefur hann vaxið hröðum skrefum. Svartþröstur er nú algengur varpfugl í grónum hlutum Innnesja og Suðurnesja og hefur breiðst þaðan nokkuð hratt út í báðar áttir. Hann verpur nú reglulega í öllum landshlutum, nema Austur- og Suðausturlandi, en á sjálfsagt eftir að nema þar land einnig. Varpheimkynni svartþrasta eru í Evrópu, Norður-Afríku og á belti í Asíu austur til Indókína.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR