• Stormmáfur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Stormmáfur að vetri til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Stormmáfur– ungfugl

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Stormmáfur er ekki ólíkur silfurmáfi en mun minni, á stærð við ritu. Hann er ljósgrár að ofan, vængbroddar svartir með hvítum doppum, annars hvítur á fiður. Höfuð er brúnflikrótt á veturna, líkt og hjá stórum máfum. Ungfugl er grábrúnflikróttur með svartan stéljaðar og brúnt bak sem verður blágrátt strax á fyrsta hausti. Fuglar á fyrsta vetri eru hvítari á höfði og að neðan, með grátt bak og axlafjaðrir, yfirvængir eru brúndröfnóttir með dökkum flugfjöðrum. Þeir lýsast síðan og á öðrum vetri eru þeir svipaðir fullorðnum fuglum, hafa þá misst svarta stélbandið en handflugfjaðrir og vængþökur þeirra eru dekkri.

Stormmáfur er stærri en hettumáfur en minni og léttari á flugi en silfurmáfur, með hnöttóttara höfuð. Gefur frá sér hávært og skerandi garg, hástemmdara og veikara en silfurmáfs, minnir á mjálm.


Fæða og fæðuhættir:
Fæða og fæðuhættir svipaðir hettumáf og sjást þeir frændur oft saman í ætisleit: ormar, skordýr, skeldýr og fiskur, einnig úrgangur.


Fræðiheiti: Larus canus

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur í litlum byggðum, stök pör eða með öðrum máfum, sérstaklega hettumáfum. Er aðallega nærri ströndinni en einnig inn til landsins, á áreyrum, í óshólmum, móum, á melum og sandi. Hreiðrið er í opnu landi, milli steina eða í gróðri, gert úr grasi, mosa og sinu. Hann sést á veturna helst í höfnum og við þéttbýli.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Stormmáfur er að nokkru farfugl. Hann er nýr landnemi, fyrsta þekkta varpið var við Akureyri 1936 og hann varp fyrst á Suðvesturlandi 1955. Aðalvarpstöðvarnar eru á Norðurlandi, mest í Eyjafirði, og svo kringum Kollafjörð og Hvalfjörð á Suðvesturlandi. Hann er smátt og smátt að dreifa sér um landið. Hluti fuglanna fer til Bretlandseyja á veturna en nokkur hundruð sjást á Suðvesturlandi, í Eyjafirði, á Skjálfanda, í Öxarfirði, á Austfjörðum og Suðausturlandi. Heimkynni eru víða um norðurhvel jarðar.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR