• Tjaldur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Tjaldur að vetri til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Tjaldurinn er auðgreindur á stærð og lit en hann er í hópi stærstu vaðfugla sem verpa á Íslandi. Hann er svartur um bak, höfuð og háls niður á bringu en hvítur að neðan. Á svörtum vængjunum eru hvít belti mjög áberandi. Stélið er hvítt með svörtum bekk og hvítur fleygur frá því upp á bak. Á ungfugli er hvítur blettur á kverk, hann eru móskulegri en fullorðinn og goggur dökkur fremst.

Tjaldur er hávaðasamur og félagslyndur fugl. Hann er kröftugur flugfugl en vængjatökin eru ekki djúp. Hann flýgur venjulega fremur lágt. Er einn fárra vaðfugla sem matar unga sína.


Fæða og fæðuhættir:
Í fjörum grefur hann eftir sandmaðki, tekur krækling og aðra hryggleysingja. Til landsins eru ánamaðkar aðalfæðan. Leitar að fæðu með því að pota goggnum ótt og títt í mjúkt undirlagið.


Fræðiheiti: Heamatopus ostralegus

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur einkum í möl og sandi nálægt sjó en einnig við ár og vötn inn til landsins, stundum í grónu landi og oft í vegköntum, stöku sinnum á húsþökum. Hreiðrið er grunn dæld í sendna jörð eða möl, ávallt á berangri, fóðrað innan með þurrum gróðri, smásteinum og skeljabrotum.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Tjaldur er að mestu farfugl. Hefur breiðst út á Norður- og Austurlandi þar sem hann var sjaldgæfur. Meirihlutinn heldur til Bretlandseyja á haustin en um 5.000–10.000 fuglar eyða vetrinum í fjörum frá Reykjanesskaga og norður í Breiðafjörð og á Suðausturlandi. Heimkynni tjalds eru annars mjög víða við strendur Evrópu og austur um meginland Asíu.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR