Óðinshani
©Jóhann Óli Hilmarsson
Karlfugl/kvenfugl
©Jóhann Óli Hilmarsson
Óðinshani að vetri til
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
Þrjár kerlur elta stakan karl
©Jóhann Óli Hilmarsson
Almennar upplýsingar
Óðinshaninn er smávaxinn og fínlegur fugl. Hann er gráleitur að ofan, fremur dökkur á sumrin en ljósari á vetrum og ljós að neðan. Í sumarbúningi hefur hann breiðan, rauðgulan kraga um hálsinn og hvítan blett í kverkinni. Hann er hvítur að neðan og með ljós vængbelti. Kvenfugl er skærlitari en karlfugl. Síðsumars og á veturna er fuglinn ljósblágrár að ofan en hvítur að neðan, með dökka augnrák. Ungfugl er svipaður en dekkri á kolli, hnakka og afturhálsi; á baki svipaður og fullorðinn fugl í sumarbúningi.
Óðinshaninn flýgur hratt og flöktir mikið. Oftast sést hann á sundi. Hann liggur hátt í vatninu, skoppar á vatnsborðinu og hringsnýst um sjálfan sig, dýfir goggnum ótt og títt í vatnið og tínir upp skordýr. Í tilhugalífinu á kvenfuglinn frumkvæðið og það er karlfuglinn sem sér um álegu og ungauppeldi en kvenfuglinn lætur sig hverfa strax eftir varpið og getur stundum verið í tygjum við fleiri en einn karlfugl (fjölveri). Óðinshani er spakur fugl og félagslyndur utan varptíma.
Fæða og fæðuhættir:
Hringsnýst á sundi og hvirflar upp fæðu, dýfir gogginum ótt og títt í vatnið og tínir upp smádýr eins og rykmý, brunnklukkur, smákrabbadýr, tínir einnig rykmý af tjarnarbökkum og landi. Úti á sjó étur hann svif.
Fræðiheiti: Phalaropus lobatus