• Himbrimi

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Par með unga

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Himbrimi – ungfugl að vetri til

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Himbrimi er stór, sterklegur og rennilegur vatnafugl, einn af einkennisfuglum íslenskra heiðavatna. Á sumrin er hann með gljásvart höfuð og háls, á hálsi er ljós kragi með svörtum langrákum og sama litamynstur á bringuhliðum. Hann er svartur að ofan, alsettur hvítum tíglum eða dílum sem eru mest áberandi á axlafjöðrum. Bringa og kviður eru hvít, vængir dökkir að ofan en hvítir að neðan. Á veturna er hann grábrúnn að ofan, með dekkri koll og afturháls, hvítur á vöngum, framhálsi og að neðan. Ungfugl er svipaður en ljósari fjaðrajaðrar mynda daufa tígla að ofan. Kynin eru eins.

Himbriminn flýgur með kraftmiklum vængjatökum. Á flugi er hálsinn niðursveigður og fæturnir skaga aftur fyrir stélið. Hann er fimur sundfugl, mikill kafari og fremur djúpsyndur, þungur til flugs og lendir á maganum en ber ekki fæturna fyrir sig eins og flestir fuglar. Brúsar (himbrimi og lómur) geta ekki gengið og koma ekki á land nema til að verpa og skríða þá á maganum til og frá hreiðrinu. Eru venjulega stakir, í pörum eða litlum hópum.


Fæða og fæðuhættir:
Fiskiæta, á ferskvatni er silungur aðalfæðan, litlir ungar fá hornsíli. Á sjó veiðir hann m.a. marhnút, ufsa, þorsk, skera og trjónukrabba.


Fræðiheiti: Gavia immer

Kjörlendi og varpstöðvar

Verpur við vötn og tjarnir með silungi, frá sjávarmáli upp í 600 m hæð. Hreiðrið er stór en grunn laut á vatnsbakka eða í litlum hólma og myndast vel troðin slóð milli hreiðurs og vatns. Ungarnir fara á vatn um leið og þeir verða þurrir. Foreldrarnir fæða þá þangað til þeir geta farið að veiða sjálfir. Himbrimi er mjög heimaríkur og líður ekki önnur himbrimahreiður nærri sínu. Það er aðeins á stærstu vötnum, sem finna má fleira en eitt par. Á Þingvallavatni eru oftast fjögur til fimm pör og eitt til tvö á Úlfljótsvatni. Dvelur á veturna við strendur og geldfugl er aðallega á sjó á sumrin.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Himbriminn er að nokkru farfugl. Staðfuglar hafa vetursetu við ströndina en farfuglar eru við Bretlandseyjar og Vestur-Evrópu. Ísland er eini varpstaður þessa vesturheimsfugls í Evrópu en hann er algengur á meginlandi Norður-Ameríku og á Grænlandi.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR