• Helsingi

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Helsinginn er önnur tveggja ,,svartra" gæsa sem fara um landið, er á stærð við heiðagæs og blesgæs. Hann verður best greindur á áberandi skörpum skilum dökka litarins að ofan og hvíta litarins að neðan, svo og hvítu andliti, kverkum og vanga. Hann hefur svarta augnrák, er svartur á kolli, hnakka, hálsi og bringu, og bak og yfirvængir eru blágrá með hvítjöðruðum svörtum þverrákum. Vængir virðast gráir að ofan á flugi, dökkir að neðanverðu. Fuglinn er ljósgrár að neðan, með hvítar stélþökur og svart stél. Fullorðinn helsingi og ungfugl eru mjög líkir. Kynin eru eins, en gassinn er sjónarmun stærri en gæsin.

Helsingi flýgur sjaldnar í oddaflugi en aðrar gæsir sem hér fara um en er oft í óskipulegum, þéttum hópum eða löngum röðum. Er stærri en margæs og með hægari vængjatök.


Fæða og fæðuhættir:
Grasbítur, sækir talsvert í tún á vorin, en einnig í úthaga og votlendi. Varpfuglar ala unga sína við ár og jökullón. Fæða þeirra er væntanlega kornsúra, starir og sef. Ber eru mikilvæg fæða á haustin ásamt kornsúrurótum og stararfræjum.


Fræðiheiti: Branta leucopsis

Kjörlendi og varpstöðvar

Fargestirnir nýta sér mýrar og tún nærri ströndinni á vorin, auk þess gróið land á hálendinu og lyngmóa á haustin. Varpfuglarnir verpa á áreyrum og hólmum í jökullónum.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Helsingi er fyrst og fremst fargestur hér á landi, en stækkandi varpstofn er í Skaftafellssýslum. Varpstofninn á Norðaustur-Grænlandi fer hér um haust og vor á leið til og frá vetrarstöðvum á Bretlandseyjum. Aðalviðkomustaðir á vorin eru í Húnavatnssýslum og Skagafirði en á haustin sunnanvert miðhálendið og Skaftafellssýslur. Utan Grænlands verpa helsingjar á Svalbarða og Novaja Zemlja, aðallega í klettum. Fyrstu fregnir um varp helsingja hérlendis voru á Breiðafirði árið 1964, þar urpu þeir í eyjum um 20 ára skeið. Árið 1988 fundust helsingjar á hreiðrum í hólmum á jökullóni á Suðausturlandi. Síðan þá hefur þetta varp vaxið og dafnað og helsingjar numið land á nokkrum öðrum stöðum í Skaftafellssýslum. Sumarið 2014 var talið að stofninn teldi rúmlega 700 varppör og á annað þúsund gelfugla. Heildarstærð íslenska varpstofnsins að hausti, með ungum, gæti því verið 4.000–5.000 fuglar.

Nákvæmlega er fylgst með stofnstærð gæsa og álftar á vetrarstöðvum þeirra á Bretlandseyjum og hérlendis. Því eru stofnstærðir og stofnsveiflur þessara fugla vel þekkt Stofn grænlenskra helsingja hefur stækkað á undanförnum áratugum, árið 1959 var stofninn 8300 fuglar, en árið 2013 var hann 80.700 fuglar. Þessi aukning er talin eiga rætur í lægri dánartíðni, m.a. vegna þess að veiðum hefur verið hætt á Grænlandi, fremur en því að varpárangur hafi batnað. Hugsanlega má rekja landnám hér til þessarar fjölgunar.

Varpstöðvar/vor og haust
Varp- og vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR