• Blesgæs

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Ungfugl (til vinstri) og fullorðin

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Blesgæs, sem er dekkst gráu gæsanna, er umferðarfugl hér. Hún er grábrún, með ljósum rákum að ofan og dökkum rákum á síðum. Dökkir framvængir eru einkennandi á flugi. Fullorðin blesgæs er meira eða minna með svartar þverrákir og díla á kviði og er hann stundum næstum alsvartur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Ungfugl er án dökku rákanna á kviði og blesunnar.

Blesgæs hegðar sér svipað og aðrar gráar gæsir en er sneggri í uppflugi, sýnist grennri og er liprari á flugi, hópamyndun er losaralegri. Er lipur sundfugl eins og aðrar gæsir og ávallt félagslynd. Röddin er hærra stemmd, meira syngjandi og þvaðrandi en hjá öðrum gæsum og lætur blesgæsin meira í sér heyra á flugi.


Fæða og fæðuhættir:
Grasbítur, á vorin sækja þær í ræktarland, en á haustin í votlendi, ef jarðbönn hamla ekki. Þær éta m.a. forðarætur kornsúru, elftingu og starir. Á haustin éta þær mest votlendisgróður, en fara einnig í berjamó og tún.


Fræðiheiti: Anser albifrons

Kjörlendi og varpstöðvar

Hérlendis velur blesgæsin sér helst ýmiss konar votlendi og úthaga en er fremur í ræktuðu landi, t.d. túnum og ökrum, í frosti og jarðbönnum.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Blesgæs er fargestur. Sú undirtegund blesgæsar sem fer um Ísland vor og haust, heitir Anser albifrons flavirostris. Hún verpur á Vestur-Grænlandi, en hefur vetursetu á Írlandi og Skotlandi. Hún er stundum kölluð grænlandsblesa. Útbreiðslusvæði blesgæsar á Íslandi er á Vesturlandi um Borgarfjarðarhérað og Hnappadal, til suðurs um Kjós og Hvalfjörð. Á Suðurlandi halda blesgæsir til á láglendi Árnes- og Rangárvallasýslu, austur undir Eyjafjöll og austur í Skaftárhrepp. Stofninn náði hámarki á árunum 1999-2000, um 35.000 einstaklingar og var það reyndar sögulegt hámark stofnsins á 20 öld. Eftir það fækkaði fuglunum mjög hratt, í rauninni svo hratt að grænlandsblesan fór á válista og er hún alfriðuð hér á landi, stofninn var aðeins 18.900 fuglar vorið 2016.

Vor og haust
Varp- og vetrarstöðvar
Litaskýringar
Fuglinn verpur ekki á Íslandi