• Húsönd

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Kolla með unga

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Steggir

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Steggir

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Ungir steggir

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Húsöndin er einkennisfugl Mývatnssveitar, meðalstór önd með sérkennilegt höfuðlag. Í fjarlægð virðist steggur dökkur að ofan en ljós að neðan. Hann er með blágljáandi svart höfuð með úfinn hnakka og bratt enni, hvítur hálfmánalagaður blettur er milli goggs og augna. Hann hefur hvítan háls, bringu, kvið og síður, svart bak og afturenda og röð af hvítum doppum á axlafjöðrum. Vængir eru svartir með hvítum speglum og hvítum miðþökum. Í felubúningi líkist hann kollu, en er með dekkra höfuð og gogg. Ungfugl er brúnn, blettur við goggrót er ógreinilegur. Kollan er með súkkulaðibrúnt höfuð, hvítan hálshring, dökkgráan búk og hvíta bringu, höfuðlag og vængmynstur svipað og á steggi. Stærðarmunur kynja er meiri en hjá flestum öðrum öndum.

Hvinur heyrist frá vængjum húsanda á flugi. Karlfuglinn er ákaflega aðsópsmikill og fjörugur í biðilsleikjum sínum, sem hann iðkar mestallan fyrri helming ársins. Hann helgar sér svæði á vatni og á oft í erjum við kynbræður sína. Er lipur sundfugl og heldur sig oft í talsverðum straumi. Húsöndin er félagslynd utan varptíma.


Fæða og fæðuhættir:
Dýraæta, kafar eftir botndýrum, fullorðnar húsendur lifa á margs konar krabbadýrum og mýlirfum, en ungar virðast þrífast best á bitmýslirfum.


Fræðiheiti: Bucephala islandica

Kjörlendi og varpstöðvar

Kjörlendi húsandar er lífrík stöðuvötn og lindár. Hún verpur í holum og gjótum í klettum og hrauni, stundum í þéttum gróðri, veggjum útihúsa (dregur nafn sitt af þeim sið) og varpkössum. Hreiðrið er fóðrað með dúni. Felli- og vetrarstöðvar eru í sama kjörlendi, einnig á ferskvatni.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Einu varpstöðvar húsandar í Evrópu eru á Norðausturlandi, aðallega við Mývatn og Laxá, örfá pör eru annars staðar. Hún hefur stöku sinnum orpið við Þingvallavatn og Sog og á síðustu árum reglulega í Veiðivötnum. Hún hefur vetursetu á varpstöðvunum og á íslausum vötnum og ám á Suðurlandi. Meginvarpstöðvarnar eru í Klettafjöllum og í norðvesturhluta Norður-Ameríku, finnst líka í Norðaustur-Kanada og varp til skamms tíma í Suðvestur-Grænlandi.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR