• Skeiðönd

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Skeiðandarkolla

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Skeiðandarsteggur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Skeiðandarkolla

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

  • Skeiðandarsteggur

    ©Jóhann Óli Hilmarsson

Almennar upplýsingar

Skeiðönd er sérkennileg önd, með sinn mikla gogg, hún er sjaldgæfasta öndin sem verpur reglulega hér á landi. Hún er minni en stokkönd, hálsstutt og fremur kubbsleg. Á steggnum skiptast á dökkir litir og hvítur, hann er með grængljáandi höfuð og háls, hvítur á bringu og teygir hvíti liturinn sig um axlafjaðrir aftur á undirgump. Hann hefur svart bak, gump og svart, ljósjaðrað stél, hvítar og svartar axlafjaðrir og rauðbrúnar síður og kvið. Í felubúningi er hann svipaður kollu, en dekkri að ofan með ljósari reiti á framvængjum. Bæði kyn eru með dökkgrænan spegil og ljósbláan reit á framvæng (vængþökum ) og hvíta rák þar á milli. Kollan er svipuð öðrum buslandakollum, verður best greind á miklum goggi, ljósgulbrúnum eða bleikleitum fjaðrajöðrum og vængmynstri, sem er daufara en á steggi.

Vegna hins stóra goggs virðist skeiðöndin framþung á flugi. Hún er djúpsynd og veit goggurinn niður á sundi. Hún síar æti úr leðju með framrétt höfuð en hálfkafar einnig. Fuglarnir eru venjulega stakir, í pörum eða litlum hópum. Er fremur stygg.


Fæða og fæðuhættir:
Hefur nokkuð aðra fæðuhætti en aðrar buslendur, notar stórgerðan gogginn til að sía fæðu á grunnu vatni eða úr leðju, hálfkafar einnig. Fæðan er sviflæg krabbadýr, lítil skeldýr, skordýr og skordýralirfur, fræ og plöntuleifar.


Fræðiheiti: Anas clypeata

Kjörlendi og varpstöðvar

Kjörlendi skeiðandar er lífríkt votlendi og seftjarnir, venjulega nærri ströndinni. Hreiðrið er í háum gróðri, oftast nærri vatni, gert úr grasi og stör og fóðrað með dúni.


Varp- og ungatímabil


Dvalartími á Íslandi

Útbreiðsla og ferðir

Skeiðöndin er farfugl. Hún er nýr varpfugl hérlendis, var áður þekkt sem sjaldgæfur flækingur en varp sannaðist fyrst 1934. Hún verpur á fáeinum lífríkum votlendissvæðum í flestum landshlutum en er algengust á Norður- og Norðausturlandi, t.d. Mývatni. Sést oft á strandvötnum á Suðvesturlandi á fartíma. Vetrarstöðvar eru taldar vera á Bretlandseyjum. Heimkynni eru víða um norðurhvel, bæði austanhafs og vestan. Er hér á norðurmörkum útbreiðslusvæðis síns í Evrópu.

Varpstöðvar
Vetrarstöðvar
Litaskýringar

EGG

HREIÐUR

UNGAR