Heiðlóa
©Jóhann Óli Hilmarsson
Vetrarbúningur
©Jóhann Óli Hilmarsson
©Jóhann Óli Hilmarsson
„Barmar sér"
©Jóhann Óli Hilmarsson
Heiðlóa – ungfugl að vetri til
©Jóhann Óli Hilmarsson
Hausthópur, vetrarbúningur
©Jóhann Óli Hilmarsson
Almennar upplýsingar
Heiðlóa, sem jafnan er nefnd lóa, er einkennisfugl íslensks þurrlendis. Hún er meðalstór vaðfugl, töluvert minni en spói, allþéttvaxin og hálsstutt. Vængirnir eru fremur langir. Fullorðin lóa í sumarbúningi er svört að framan og neðan en gul- og dökkflikrótt að ofan. Á milli svarta og gulflikrótta litarins á bakinu er hvít rönd. Hún hverfur á haustin eins og svarti liturinn og lóan verður þá ljósleit að framan og á kviðnum. Ungfuglar eru svipaðir. Vængir eru hvítir að neðan. Kynin eru svipuð, karlfuglinn er litsterkari.
Lóan er hraðfleyg og hún fer einnig hratt yfir þegar hún hleypur um á jörðu niðri. Biðilsflug með hægum, djúpum vængjatökum og söng er einkennandi. Sé reynt að nálgast hreiður eða unga lóunnar þykist hún vera vængbrotin til að draga að sér athyglina og lokka óvininn burt. Hún er félagslynd utan varptíma.
Þekktustu hljóð lóunnar eru söngurinn á varptímanum, „dírrin-dí“ eða „dýrðin-dýrðin“, sem hún syngur bæði sitjandi og á flugi.
Fæða og fæðuhættir:
Étur skordýr, t.d. bjöllur, áttfætlur, þangflugur, orma, snigla, skeldýr og eins ber á haustin. Hleypur ítrekað stutta spretti í ætisleit og grípur bráðina.
Fræðiheiti: Pluvialis apricaria