Fróðleikur

Lífsferill > Uppeldi og umönnun

Lóuungi

Mismunandi er eftir tegundum hversu þroskaðir ungar eru við klak. Sumir klekjast vel fiðraðir og fara strax á stjá. Engu að síður eru foreldrarnir í nánd og gæta þeirra og kenna þeim að finna sér fæðu. Dæmi um vel þroskaða unga eru ungar mófugla og anda. Hér til vinstri er mynd af lóuunga.

Þrastarungi

Álagið á foreldrana er meira hjá tegundum þar sem ungarnir eru minna þroskaðir. Ungar spörfugla eru t.d. blindir, naktir og ósjálfbjarga. Það þarf að bera í þá mikla fæðu og vernda þá mjög vel, meðal annars fyrir kulda. Hér til hægri er mynd af jafngömlum þrastarunga.

Álagið á foreldrana er líka mikið meðal máfa, ránfugla og svartfugla. Ungarnir eru alklæddir dún við klak en bundnir við hreiðrið meðan þeir taka út sinn þroska því það er oft erfitt fyrir þá að afla sér fæðu. Lítill ungi stekkur ekki fram af klettasyllu til að afla matar og ránfuglsunginn ræður ekki við að veiða fyrr en hann stálpast og lærir.

Komi óboðnir gestir of nálægt hreiðri eða ungum eiga foreldrar það til að draga alla athygli til sín og þannig afvegaleiða óvininn. Þeir halda í aðra átt en hreiðrið er og þykjast vængbrotnir eða helsærðir. Bægslagangurinn getur verið mjög áhrifamikill og spaugilegur.

  • Lundi með síli.

  • Maríuerla með skordýr

  • Tjaldur leiðbeinir unga

  • Toppskarfur fæðir unga.

  • Lóa dregur athygli frá afkvæmum.

  • Fálki með bráð.