Fróðleikur

Atferli > Hópamyndun

Það getur verið gott fyrir fugla að vera í hópum því þá eru minni líkur á að þeir verði fyrir árás óvina. Í sumum tilvikum getur hópur fugla þó laðað að óvini.

Í hverjum fuglahópi eru alltaf einstaklingar sem verða varir við utanaðkomandi hættu í tíma og þess vegna eru hinir fuglarnir rólegri.

Hópurinn er fljótari að finna fæðu en stakir fuglar. Betur sjá augu en auga.

Starar að hópa sig

Starar, þrestir og hrafnar hópa sig á kvöldin og nátta sig. Oft eru náttstaðirnir skjólsælir og stundum sitja fuglarnir þétt þannig að þeim verður ekki kalt. Þeir eru öruggir og ef hætta steðjar að má búast við að í svo stórum hópi séu alltaf einhverjir sem vaka.

Svo virðist vera að í náttstað miðli fuglarnir upplýsingum um góða fæðustaði. Það hefur sýnt sig að fuglar sem báru ekki mikið úr býtum einn daginn fari venjulega á eftir hinum sem betur gekk næsta dag.

Gæsir eru gjarnan í hópum. Þegar þær fljúga oddaflug gera þær í sameiningu flugið léttara. Fuglarnir skiptast á um að vera fremstir. Þegar fremsti fuglinn blakar vængjunum kemst loft á hreyfingu og auðveldar það næsta fugli flugið. Sá fugl blakar líka vængjunum og auðveldar þarnæsta fugli flugið og svo koll af kolli!