Fróðleikur

Lífsferill > Pörun

Straumandarpar

Fuglarnir hefja tilhugalíf sitt á mismunandi tímum. Allir fuglar skipta um búning a.m.k. einu sinni á ári og margir klæðast varpbúningi. Það er einkum karlfuglinn sem verður skrautlegur og áberandi og laðar þannig til sín maka en stuggar jafnframt öðrum karlfuglum frá. Þetta er sérstaklega áberandi meðal anda.


Ýmiss konar atferli á sér stað þegar fuglarnir para sig:
Margir fuglar helga sér óðal í kringum varpstað sinn. Þeir þurfa ákveðið rými fyrir búið sitt og einnig nægan aðgang að fæðu. Óðulin eru misstór eftir tegundum. Þannig sitja bjargfuglar þétt, en passa engu að síður sitt. Oft er aðeins eitt par himbrima á nokkuð stóru vatni.

Fuglarnir verja óðul sín til dæmis með söng - og reiðigargi komi einhver of nálægt. Þeir geta einnig gefið skilaboð með líkamsstöðu og augnaráði. Ef hinn óboðni gestur lætur ekki segjast geta hafist slagsmál!

Margir fuglar dansa pörunardans. Þetta er til dæmis tilkomumikið hjá ýmsum andategundum. Vatnið er þar nauðsynlegt leiksvið og verður sýningin enn áhrifameiri þegar vatnsgusur ganga í bogum umhverfis fuglinn! Á þurru landi geta líka átt sér stað fallegir dansar. Hrossagaukar stíga til dæmis hringdans þar sem stélin standa bísperrt upp í loftið og inn á milli er flögrað og hoppað.

Margar tegundir fugla gefa væntanlegum maka sínum mat. Þannig ná þeir að heilla og hugsanlega skapa traust. Þetta er algengt á meðal máfa. Einnig ber kallinn kellu sinni, sem liggur á eggjunum, mat.